Innlent

Segir sveitarfélög fjármagna kjarasamninga með uppsögnum

Halldór Hallórsson.
Halldór Hallórsson. Mynd/GVA
„Sveitarstjórnarmenn hafa sagt við mig eftir þessa samninga, sem við höfum auðvitað orðið að gera því getum illa skorið okkur frá ríki og almennum markaði, er á þessa leið - þetta fjármögnum við með því að segja upp fólki,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sigurjón M. Egilsson ræddi við Halldór og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í útvarpsþætti sínum á Bylgjunni í dag um kjarasamninga og horfur í efnahagsmálum. Halldór sagðist alltaf hafa haft miklar efasemdir um kjarasamningana og aukin útgjöld fyrir sveitarfélögin. Hann hafi ekki haft trú á efnahagsforsendum sem höfð voru til hliðsjónar þegar samningarnir voru gerðir. Það sé að koma á daginn núna að samningarnir muni reynast sveitarfélögunum erfiðir.

Eftir langa samningarimmu náðust kjarasamningar á almennum vinnumarkaði í byrjun maí. Þá spáðu sérfræðingar að verðbólga myndi aukast.

Gylfi sagði ekki við kjarasamningana að sakast. Réttast væri að beina athyglinni að Seðlabankanum og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. „Auðvitað vissum við að 4% launahækkun myndi hafa áhrif á verðlag en laun í landinu eru ekki nema 35% af verðlagningu. Restin er gengi og annar kostnaður. Þannig að það er ekki hægt að skýra 5% verðbólgu með 4% launahækkun. Það gengur bara ekki upp.“

Halldór tók undir með Gylfa og sagði verðbólguna sem slíka ekki skýrða með launahækkunum. Um leið þyrfti að hafa í huga að kaupmátturinn skipti mestu og að fólk fái sem mest fyrir launin.

Gylfi benti á að krónan hefði fallið og haldið áfram að veikjast undanfarna mánuði.  „Veiking krónunnar endurspeglar mat bæði markaðarins og umhverfisins á efnahagsþróuninni. Við erum með krónuna í höftum og þrátt fyrir það veikist hún." Þá sagði Gylfi Íslendinga þurfa að hugsa lengra og fá annan gjaldmiðil í stað krónunnar sem reglulega hafi kaupið og eiginirnar af fólki. Íslendingar þurfi einfaldlega stærri gjaldmiðil sem þoli meira álag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×