Innlent

Of lítil nýliðun í matvælaiðnaðinum

Matvæla-og veitingafélag Íslands beitir sér nú fyrir því að hvetja ungt fólk til að læra þjóninn, kokkinn og bakarann og mennta sig í kjötiðnaði.  Töluvert vantar af matreiðslumönnum til starfa, einkum yfir sumartímann, og skortur er á iðnmenntuðum í hinum greinunum. Níels Olgeirsson, formaður Matvís, hefur áhyggjur af þessari þróun.

Níels segir nýliðun hafa verið þokkalega í hópi matreiðslumanna en þó sé hún ekki nógu mikil. Á sumrin skortir oft matreiðslumenn enda mörg hótel og ferðamannastaðir í rekstri þá. Þá sé of lítil nýliðun í hópi kjötiðnaðarmanna, bakara og framreiðslumanna. 

Mikið af erlendu vinnuafli hefur verið tekið inn í þau störf undanfarin ár og nemar ekki teknir inn á meðan. Það sé nú að koma í bakið á fyrirtækjunum.  Matvís ætlar að taka á þessum málum.  Níels segir að nú sé unnið að stofnun sjóðs sem gæti borgað fyrirtækjum fyrir að taka að sér nema í þessum iðngreinum. Þá sé einnig verið að ræða við veitingahús og hvetja þau til að taka fleiri en einn nema í einu. Níels segir þessa þróun varhugaverða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×