Innlent

Hátt í áttahundruð stúdentar í húsnæðisvanda

Helga Arnardóttir skrifar
Hátt í átta hundruð háskólastúdentar eru á biðlista eftir íbúðum hjá Félagsstofnun stúdenta. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir ófremdarástand ríkja í húsnæðismálum námsmanna og almennur leigumarkaður sé of dýr fyrir þennan hóp. Dæmi séu um að fólk hringi grátandi til þeirra vegna húsnæðisvandræða.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem biðlistar lengjast eftir námsmannaíbúðum hjá Félagsstofnun stúdenta og þetta ár er engin undantekning. Nú voru umsóknir 120 fleiri en í fyrra.

„Við erum yfirleitt með fimm hundruð til ellefu hundruð manns á biðlista og höfum verið með það í mörg ár. Nú sýnist okkur eftir að við erum búin að úthluta að það verði um 750 til 800 manns sem fá ekki íbúðir hjá okkur," segir Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.

Guðrún segir að það sé tilfinnanlegur skortur á leigumarkaði fyrir ungt lágtekjufólk og stúdenta.

„Ég held að aukningin felist kannski í því að fólk þarf að losa eigið húsnæði sem það festi kaup á og hefur ekki lengur efni á að halda. Leigumarkaðurinn er líka bara dýr, of stórar og dýrar íbúðir á markaðnum."

Hún segir að ástandið þyrfti ekki að vera svona slæmt ef félagsstofnun stúdenta fengi lóðir til að byggja á.

„Okkar barátta hefur falist í því að fá lóðir í nágrenni við háskólann til að mæta helstu ósk þeirra sem vilja leggja bílnum. Þetta er erfitt og hefur gengið hægt. Svo dæmi sé tekið erum við búin að bíða eftir lóð í rúm fjögur ár í Vatnsmýrinni til að geta hafið byggingaframkvæmdir þar sem ráðgert er að byggja um 300 íbúðir."

Það hafi hins vegar gengið alltof hægt vegna seinagangs í skipulagsferlinu.

„Þetta er alltaf mjög erfiður tími fyrir okkur sérstaklega þegar úthlutun lýkur og það er ekkert launungarmál að fólk hefur hringt í okkur grátandi vegna húsnæðisvandræða og veit ekki hvað það á að gera. Við getum ekki úthlutað fleiri íbúðum en við höfum en við getum hins vegar byggt meira. Við höfum alla burði til þess og vera með fleiri íbúðir til að úthluta. Það sem vantar er einfaldlega að spíta í lófana og byggja meira en þetta haust verður mörgum erfitt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×