Innlent

Örtröð í Leifsstöð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjöldi fólks hefur ferðast um Leifsstöð í júlí.
Fjöldi fólks hefur ferðast um Leifsstöð í júlí.
Aldrei í sögu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa fleiri farþegar farið um flugstöðina í júlímánuði en í þeim mánuði sem nú er nýliðinn. Samtals fóru 332.501 farþegar um flugstöðina. Þar til nú í ár var júlímánuður 2007 sá stærsti í sögu flugstöðvarinnar en þá fóru samtals 309.004 farþegar um stöðina. 

Sé eingöngu horft til brottfararfarþega þá voru þeir 5,3% fleiri í júlí árið 2007 en nú í ár en komufarþegar voru álíka margir nú og 2007. Fjöldi skiptifarþega hefur hins vegar aukist til muna samanborið við 2007 en það eru þeir farþegar sem millilenda á Keflavíkurflugvelli til að halda áfram för. Þeim fjölgaði  úr 48.021 í júlí 2007 í  78.362 í nýliðnum júlímánuði, eða um 63,2%.

Í samanburði við árið 2010 hefur farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgað um 22% fyrstu 7 mánuði ársins, úr 991.224 árið 2010 í 1.209.021 í ár. Brottfararfarþegum fjölgaði um 18,6%, komufarþegum um 18% og skiptifarþegum um 40%.

Að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, er þessi aukning nú í sumar umfram þær væntingar sem gerðar voru í upphafi árs. „Starfsfólk hér á Keflavíkurflugvelli hefur staðið sig frábærlega en flesta daga vikunnar hafa verið afgreidd upp í 20 farþegaflug samtímis á háannatíma bæði að morgni og síðdegis.  Ágústmánuður lítur vel út og við erum bjartsýn um haustið og veturinn," segir Hlynur í fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×