Innlent

Ætlað tap Seðlabankans á sölu FÍH nemur heildarútgjöldum til vegamála

Seðlabanki Íslands gæti tapað um tuttugu og tveimur milljörðum króna á hruni hlutabréfa í danska skartgripafyrirtækinu Pandóru í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Það jafngildir heildarútgjöldum ríkissjóðs til vegamála á síðasta ári.

Sama dag og neyðarlögin voru sett í miðju bankahruni veitti Seðlabanki Íslands Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlán. Seðlabankinn tók veð í danska bankanum FIH sem tryggingu og var FIH bankinn seldur í fyrra til danskra lífeyrissjóða og sænskra fjárfesta. Þá fékk Seðlabankinn 255 milljónir evra upp í kröfu sína á hendur Kaupþingi, eða rétt um helming.

Í samningnum var ákvæði um að Seðlabankinn gæti fengið aukalega allt að 1,9 milljarða danskra króna, jafnvirði 415 milljóna evra, út er fjárfestingarsjóðnum Axcel sem FIH á hlutdeild í. Stærsta eign sjóðsinsins er hlutur í skartgripafyrirtækinu Pandóru en slæmu tíðind eru að síðan um áramót hafa hlutabréf í Pandóru hríðfallið eða um 80 prósent.

Miðað við breytingar á verðmæti skartgripafyrirtækisins gæti tap Seðlabankans numið allt að 22 milljörðum króna en þess má geta að það jafngildir heildarútgjöldölum íslenska ríkisins til vegamála á síðasta ári samkvæmt ríkisreikningi.

Í umfjöllun um málið á dönsku vefsíðunni Finanswatch segir að núverandi eigendur FIH hafi ekki stórar áhyggjur af þessu tapi þar sem reikningurinn fyrir það verði sendur til Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum mun endanlegt verðmæti vegna sölunnar á FIH og þar með Axcel sjóðnum ekki liggja fyrir fyrr en í lok áranna 2014 og 2015. Bankinn geti því ekki verið að leggja opinberlega mat á hugsanlega útkomu af sölunni út frá stöðu og hreyfingum á mörkuðum hverju sinni. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×