Innlent

Vegfarendur geta keyrt áhyggjulausir um Oddskarðsgöng

Oddskarðsgöng liggja á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar.
Oddskarðsgöng liggja á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar.
Vegagerðin telur að öryggi vegfarenda í Oddsskarðsgöngum sé ekki sérstaklega ógnað vegna hugsanlegs grjóthruns. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Vegagerðin sendi frá sér í dag, en matið byggir á ástandi bergsins og reynslu fyrri ára.

Í tilkynningunni er sú staðreynd undirstrikuð að net taki við grjóthruni á svæðinu, sem þó sé ólíklegt að verði á annað borð. Þrátt fyrir að tveir stærri steinar hafi fallið úr lofti Oddskarðsganga í vor, sé ekki hætta af slíku grjóthruni í göngunum. Öryggisnet grípi þá steina sem kynnu að falla, og það hafi verið tilfellið í áðurnefndu steinahruni.

Vegagerðin tekur það fram að auk sérstakrar skoðunar í kjölfar atviksins síðastliðið vor sé svæðið reglulega skoðað, og hvergi hafi komið í ljós los á stærri steinum. Ítarlegri úttekt verði einnig gerð fljótlega þar sem kannað verður hvort þörf er á frekari styrkingum eða netvörnum.

Þá segir að lokum: „Oddsskarðsgöng voru opnuð 1977 og aldrei hefur orðið hrun í þeim sem hefur ógnað vegfarendum. Á afmörkuðum stöðum hafa losnað og hrunið smærri steinar en netið í loftinu tekur við þeim, þetta hefur ekki verið meira áberandi í sumar en fyrri ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×