Innlent

Yfir 40 milljónir í að hreinsa graffiti

Hafsteinn Hauksson skrifar
Veggjakort
Veggjakort Mynd/Rósa
Orkuveita Reykjavíkur hefur á síðustu þremur árum eytt á fimmta tug milljóna í að fjarlægja veggjakrot af mannvirkjum fyrirtækisins. Fyrirtækið segir tjón þess þó enn meira vegna skemmdarverkanna.

Veggjakrot virðist vera vaxandi vandamál í Reykjavík, en helmingi fleiri tilkynningar um veggjakrot hafa borist lögreglunni síðustu tvo mánuði, en á sama tíma í fyrra.

Veggjakrotið er hins vegar dýrt spaug. Eins og fréttastofa greindi frá um helgina nam kostnaður Reykjavíkurborgar vegna veggjakrots 44 milljónum á síðasta ári, en í ár er kostnaðurinn áætlaður 26 milljónir.

Aðrar opinberar stofnanir bera sömuleiðis mikinn kostnað af þessari vafasömu iðju.

Frá árinu 2008 hefur Orkuveita Reykjavíkur til dæmis varið rúmlega 42 milljónum í að fjarlægja veggjakrot af mannvirkjum fyrirtækisins.

Í svari Orkuveitunnar við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að þessi beini útlagði kostnaður endurspegli þó ekki tjónið sem hlýst af veggjakroti. Tjónið sé meira en honum nemur, þar sem ekki tekst að fjarlægja allt, meðal annars vegna sparnaðaraðgerða fyrirtækisins, en útgjöld þess vegna krotsins hafa dregist saman frá árinu 2008 og námu í fyrra um 7 milljónum.

Þá liggi tjónið ekki aðeins hjá Orkuveitunni, heldur líka þeim sem þurfa að hafa krotið fyrir augunum.

Þegar kostnaður annarra opinberra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga er svo talinn saman er ljóst að tjónið af völdum veggjakrots gæti verið margfalt á við kostnað borgarinnar og Orkuveitunnar einna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×