Innlent

Segir að svarta hagkerfið blómstri í bílaviðgerðum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir að svarta hagkerfið blómstri þegar komi að bílaviðgerðum. Eftir þrjár auglýsingar barst aðeins ein umsókn um stöðu bífvélavirkja hjá Heklu og sá hætti við þótt um hundrað bifvélavirkjar séu skráðir atvinnulausir.

Hekla auglýsti nýverið eftir starfskröftum á vélaverkstæði og kom það starfsmönnum á óvart hversu dræm viðbrögðin voru. Einn bifvélavirki sótt um starf sem auglýst hafði verið þrisvar en hætti við þegar laun á gamla vinnustaðnum voru hækkuð, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, hefur miklar áhyggjur af þessari þróun. „Það er okkar mat að það sé í miklum blóma núna þetta svarta hagkerfi. Menn verða varir við það bæði nálægt sér og af afspurn. Svo segja þessar tölur mikið, að hundrað bifvélavirkjar séu á atvinnuleysisskrá en samt gangi illa að manna stöður á verkstæðum," segir Özur. Hann segir að ástæðan sé ekki sú að þessir bifvélavirkjar séu farnir úr landi. Eina vísbending sé sú að menn séu að vinna neðanjarðar.

„Við höfum orðið var við að þetta hafi stóraukist núna með aukinni skattbyrði og það eru dæmi um það í sögunni, við þurfum ekki að fara mörg ár aftur í tímann, að menn hafi sótt meira í svarta vinnu eftir að skattbyrði jókst á þeim. Ég held að það sé hluti af skýringunni núna meðal annars."

Ríkisskattstjóri, SA og ASÍ réðust í átak gegn svartri atvinnustarfsemi í júní undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum?" en starfsfólk á vegum ríkisskattstjóra heimsótti lítil og meðalstór fyrirtæki, m.a bifvélaverkstæði til að kanna hvort þar væri óskráð starfsfólk. Þá er verið að útbúa vinnustaðaskírteini sem mönnum ber að hafa á sér til að sanna að þeir séu löglega skráðir launamenn á viðkomandi stað. Átakið beinist hins vegar ekki að aðilum sem vinna í heimahúsum, skemmum og skúrum hér og þar um bæinn.

„Þeir spila nokkuð frítt áfram, því miður. Það þyrfti að gera meira átak í að leita þá uppi eða beita öðrum ráðum til að gera þeirra starfsemi óhagkvæma svo þessar tekjur skili sér til þjóðarbúsins en séu ekki þarna í einhverju neðanjarðarhagkerfi," segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×