Innlent

Óvenjumikill fjöldi nauðgunarmála

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta Mynd úr safni
Fjöldi nauðgunarmála sem hefur komið upp eftir helgina er óvenjumikill segir talskona Stígamóta.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segist ekki muna eftir að svo margar nauðganir hafi verið þekktar strax eftir Verslunarmannahelgina og nú. Skýringin gæti verið að stúlkur leiti sér fyrr hjálpar en áður.

„Og það væri mjög af hinu góða. Það gæti hins vegar líka þýtt að nauðganir séu mjög fleiri í ár en þær hafa verið undanfarin ár," segir Guðrún.

Hún segir það skipta miklu máli hvernig mótshaldarar búi að þessum málum og að nauðsynlegt sé að þeir hafi þjálfuð áfallateymi á staðnum.

„Hinsvegar held ég að það vanti heilmikil upp á það ennþá að gestir viti af þessum áfallateymum," segir hún og bætir við að þau verði að vera gestum sýnileg annars séu þau einskis virði. „Þær verða að vita að þessi þjónusta sé í boði, alveg eins og upplýsingar eru um salernisaðstöðu eða lögreglu."

Hún segir það þó miður hversu margar stúlkur leiti sér ekki hjálpar heldur reyni frekar að grafa og gleyma reynslu sinni.

„Þær leitast við að ná valdi á lífi sínu aftur og hrista af sér þessar slæmu minningar. Svo er það oft mun seinna að þær átta sig á því að það er erfiðara en það þær halda. Afleiðingar geta verið miklar og langvinnar.“

Með því að vinna úr sínum málum geti þær öðlast mun betri líðan.

„Þess vegna hvetjum við allar konur að sækja alla þá hjálp sem þær geta sem fyrst, á neyðarmóttöku eða til Stígamóta hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka neyðarmóttaka á Akureyri og það eiga að vera hjálparmóttökur um allt land,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×