Innlent

Landlæknir fluttur á Barónsstíg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landlæknisembættið er flutt. Mynd/ Vilhelm.
Landlæknisembættið er flutt. Mynd/ Vilhelm.
Landlæknisembættið hefur starfsemi í gömlu Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík í dag, eftir að hafa starfað um árabil að Austurströnd á Seltjarnarnesi. Geir Gunnlaugsson landlæknir segir að starfsfólk hafi unnið að flutningum yfir helgina. Nú þegar starfsemi hefst í Heilsuverndarstöðinni lýkur sameiningaferli Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar sem hófst 1. maí síðastliðinn.

Geir Gunnlaugsson segir að það sé einstaklega góður áfangi að hefja starfsemina á nýja staðnum. „Það er með auðmýkt sem við göngum hingað inn og vinnum í því að festa embættið í þessu sögufræga húsi sem var byggt upphaflega sem Heilsuverndastöðin í Reykjavík," segir Geir.

Á vefsíðu Landlæknis segir að nú verði einnig virkjuð breyting á skipulagi starfseminnar sem hefur verið í undirbúningi frá því í upphafi árs 2010. Fagsvið embættisins verða fjögur ásamt einu stoðsviði og skrifstofu landlæknis. Alls verða starfandi 56 starfsmenn hjá hinu sameinaða embætti landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×