Innlent

Mikil gleði mætti áhöfn Ægis

Breki Logason skrifar
Skipsherrann á Varðskipinu Ægi sem bjargaði 58 flóttamönnum í Miðjarðarhafi á laugardag segir mikla gleði hafa mætt áhöfninni við björgunina. Í hópnum voru meðal annars tvær ófrískar konur, en önnur þeirra var gengin fram yfir tíma.

Varðskipið Ægir hefur verið við landamæragæslu í Miðjarðarhafi á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins síðan í maí. Símtal barst úr hópnum á föstudagskvöld þar sem fólkið lét vita af sér, en vissi lítið hvar það væri statt.

Fjórtán tímum síðar kom Ægir síðan hópnum til bjargar í gilskorningi á Radopos skaga á Krít, en um er að ræða Sýrlenska og Afganska flóttamenn sem skildir höfðu verið eftir tveimur dögum áður.

Einar segir að ástandið á hópnum hafi verið gott miðað við aðstæður. „Það var talsvert mikið af ungum börnum þarna og konum og tvær vanfærar konur, önnur gengin framyfir tímann. Þannig að það kom okkur á óvat hvað ástandð á þeim var gott," segir Einar Valsson skipsherra.

Einar segir að gleðin hafi ekki leynt sér þegar skipið kom loks á vettvang enda hafi vistin líklega verið mjög erfið. Fólkið hafi haft litla möguleika á að bjarga sér sjálft. „Í rauninni hefði verið mjög erfitt að koma einhverri annarri björgun við en frá sjó," segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×