Innlent

Enn skelfur jörð við Grindavík

Skjálfti af stærðinni 3,4 varð á ellefta tímanum í gærkvöldi um tvo og hálfan kílómetra austnorður af Grindavík. Skjálftinn átti upptök sín skammt undir yfirborði jarðar eða á um 2,5 kílómetra dýpi og því fannst hann greinilega í bænum.

Jörð skalf á sömu slóðum á mánudagsmorgun en sá skjálfti var öllu minni en sá sem reið yfir í gær. Veðurstofu Íslands bárust allmargar tilkynningar vegna skjálftans í gærkvöldi og eins höfðu Grindvíkingar samband við fréttastofu.

Einn bæjarbúi lýsti því hvernig hús sitt hefði nötrað og að styttur í hillum hafi farið á hliðina. Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfarið í nótt og virðist sá stærsti hafa komið um klukkan hálftvö og mælst um þrír á Richter-kvarðanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×