Innlent

Íslenskt kennslumyndband í anda The Office vekur athygli

Nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í tölvuöryggismálum hefur vakið athygli hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Leyndarmálið er að ná athygli starfsmanna með húmor.

Starfsmenn eru oft veikasti hlekkurinn þegar kemur að því að verja fyrirtæki fyrir netárásum, en sprotafyrirtækið AwareGo hefur hins vegar fundið leið til að ná til veikustu hlekkjanna með gamansömum kennslumyndböndum.

„Við fórum út í það að gera svona þætti, þetta svipar til the Office þannig að fólk hafi hvata til að horfa." segir Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo, en myndböndin eru tólf talsins og kenna starfsfólki til dæmis að bera kennsl á hættur í tölvupósti.

Ragnar segir síðustu tvö ár hafa verið mikla vinnu við að kynna hugmyndina en nú séu hjólin farin að snúast. „Við vorum í gær að selja ansi stórt til eins stærsta matvælaframleiðanda í Evrópu og það er ofboðslega margt í pípunum akkúrat núna"

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sýnt verkefninu áhuga og er fyrirtækið nú í vottunarferli sem er undanfari þess að stofnanir á borð við bandaríska herinn geti notað lausnina, en Ragnar segir að það yrði gullstimpill fyrir fyrirtækið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×