Innlent

Leikskólakennarar fara fram á 30 þúsund krónur

Launaleiðréttingin sem leikskólakennarar krefjast í yfirstandandi kjaraviðræðum er um þrjátíu þúsund krónur. Stéttin er klár í verkfall ef samningar nást ekki fyrir næsta mánudag.

Samningafundur í kjaradeilu leikskólakennara og sveitafélaga, sem stóð yfir í einn og hálfan tíma í morgun, bar engan árangur. Ekki hafði verið fundað í deilunni síðan á mánudag.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar en að öllu óbreyttu leggja leikskólakennarar niður vinnu eftir viku. Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, sem hefur hingað til verið bjartsýnn í samningaferlinu, segir stéttina nú búa sig undir verkfall.

Grunnlaun leikskólakennara eru 247 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta en samninganefnd leikskólakennara fer fram á um 12% launahækkun í samræmi við aðra samninga sem hafa verið gerðir nýlega, auk 11 % launahækkunar umfram það.

„Það er ekkert sem réttlætir það að leikskólakennarar séu 25% á eftir viðmiðunarstéttum, eins og t.d. grunnskólakennurum, sem verða seint taldir hálaunastétt í okkar þjóðfélagi." segir Haraldur, „Við erum að fara í gegnum sama nám og það eiga að vera sömu laun fyrir sömu menntun. Maður á ekki að fá minni laun fyrir að kenna minna fólki."

Ef samninganefndin nær sínu fram hækka grunnlaunin í 307 þúsund krónur fyrir skatta, eða um 60 þúsund krónur á næstu þremur árum. Þegar skattar og launatengd gjöld hafa verið dregin frá sitja þó einungis eftir 30 þúsund krónur í vösum kennara. Haraldur segir kjaraviðræður stranda á 11% launaleiðréttingunni, sem hljóði upp á 15 þúsund krónur eftir skatt.

Haraldur segir leikskólakennara standa heilshugar að baki samninganefndinni. Stéttin geti staðið undir löngu verkfalli. „Það er mikill kraftur í stéttinni og þeir eru klárir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×