Innlent

Erill á Selfossi

Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint
Í liðinni viku voru 7 ökumenn eða farþegar kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti bifreiðar sinnar í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.  26 voru kærðir fyrir að aka of hratt og voru flestir þeirra á ferð á Suðurlandsvegi og á Biskupstungnabraut, meðal annars innan þeirra marka við þéttbýlið á Borg þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst   Mælingar á Þingvallavegi, á Mosfellsheiði og á nýjum vegi yfir Lyngdalsheiði hafa ekki gefið til kynna að þar sé mikið um hraðakstur en lögð hefur verið áhersla á hraðamælingar á þessum vegum liðnar vikur og verður svo áfram.

Árekstur varð á gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu þann 10. ágúst.  Þar rákust saman tveir fólksbílar og slasaðist ökumaður annars þeirra lítillega.   Þá varð árekstur tveggja bifreiða við gatnamót  Eyrabakkavegar og Valsheiðar  þann 11. ágúst.  Þar rákust saman tveir bílar, báðir með kerru og varð af tölvert eignatjón auk þess sem farþegi í öðrum bílnum kenndi eymsla í brjósti.  Þriðji áreksturinn varð á gatnamótum Biskupstungnabrautar og Skeiða - og Hrunamannavegar skammt ofan við Geysi þegar ökumaður sem ók suður Biskupstungnabraut beygði til vinstri inn á Skeiða- og Hrunamannaveg í veg fyrir bifreið sem ekið var norður Biskupstungnabraut.   Tveir voru í hvorum bíl og þurftu allir á læknisaðstoð að halda eftir óhappið en áreksturinn var harður.

Þá varð óhapp á Austurvegi á Selfossi þegar bifreið var snúið við á akbrautinni (tók U beygju) í veg fyrir ökumann á vespu sem ekið var austur Austurveginn.   Ökumaður vespunnar hlaut brunasár af útblástursröri hjólsins en slapp ómeiddur að öðru leiti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×