Innlent

Mikið af fölsuðum varningi í umferð

Fölsuð Rolex-úr er meðal þess sem er í umferð hér á landi.
Fölsuð Rolex-úr er meðal þess sem er í umferð hér á landi.
Mikið magn af fölsuðum varningi er flutt til Íslands en stór hluti er gerður upptækur af tollayfirvöldum. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu, segir það koma mörgum á óvart hversu mikið af fölsuðum varningi er flutt til landsins. Þar á meðal eru snyrtivörur, úr, farsímar, fótboltatreyjur og jafnvel lyf.

Borghildur var gestur þáttarins Í bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hún vakti athygli á ráðstefnu sem Einkaleyfastofa stendur fyrir fimmtudaginn 18. ágúst í tilefni af 20 ára afmæli stofunnar.

Á ráðstefnunni verður til sýnis falsaður varningur, bæði frá íslenskum og erlendum tollayfirvöldum, og upphaflega varan sýnd til samanburðar, en falsarar virðast verða sífellt færari í að sannfæra neytendur um að þeirra vara sé ekta.

Borghildur segir í samtali við Bylgjuna að þeir sem flytja falsaða vöru til Íslands í því skyni að selja hana geri sér í flestum tilfellum grein fyrir því að um falsaðan varning sé að ræða. Þeir freistast þá til að selja hana fullu verði, eins og um upphaflegu vöruna sé að ræða, eða selja hana fyrir mun minni pening en þeir sem hafa ekta vöru á boðstólnum. Borghildur vekur athygli á því að þó útlitið geti verið svipað hjá falsaðri og ekta vöru þá sé vitanlega enginn sem ábyrgist gæðin á fölsuðu vörunni.

Á ráðstefnunni verður einnig opnuð formlega vefsíðan Falsanir.is

Þar er hægt að fræðast um falsaðan varning og koma með nafnlausar ábendingar um innflutnings- og söluaðila slíkra vara.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Borghildi Í bítinu með því að smella á tengilinn hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×