Innlent

10 ár í gær frá stofnun Fréttablaðsins

Sigríður Björg Tómasdóttir skrifar
Stofnendur Fréttablaðsins.
Stofnendur Fréttablaðsins.
Hinn 23. apríl 2001 kom fyrsta tölublað Fréttablaðsins út. Útgáfa blaðsins átti sér nokkurn aðdraganda, segir Eyjólfur Sveinsson stofnandi Fréttablaðsins.

„Þróunin alls staðar í kringum okkur var sú að smærri blöðum fækkaði og við sáum að blöð yrðu að vera stærri og færri þegar internetið yrði komið almennilega í gang,“ segir Eyjólfur Sveinsson en þeir faðir hans, Sveinn R. Eyjólfsson, leiddu Frjálsa fjölmiðlun, útgáfufélag DV, sem um miðjan tíunda áratug síðustu aldar eignaðist flokksblöðin Tímann, Alþýðublaðið og Vikublaðið /Þjóðviljann og felldi undir hatt dagsblaðsins Dags. „Við sáum þó sumarið 2000 að Dagur var ekki þetta þriðja blað sem við leituðum að en tapreksturinn á honum gekk mjög nærri Frjálsri fjölmiðlun. Þá fórum við að horfa í kringum okkur til að leita að öðrum hugmyndum.“

Útgáfunni var þó fram haldið þangað til í mars 2001 einum mánuði áður en Fréttablaðið hóf göngu sína. Eyjólfur segir að það hafi ekki verið inni í myndinni fyrir útgáfufélagið Frjálsa fjölmiðlum að láta sér útgáfu DV nægja. „Okkur leist ekki á það, við töldum að það myndi koma út þriðja blaðið á markað þar sem fyrir voru Morgunblaðið og DV. Ef við myndum ekki gefa það út þá yrði einhver annar til þess og það gæti orðið DV skeinuhætt,“ segir Eyjólfur.

Fríblöðin fönguðu athyglina„Þegar við fórum að skoða hvað var að gerast erlendis þá sáum við að metróblöðin sem dreift var á samgöngumiðstöðvum voru orðin nokkuð sterk til dæmis í Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi. Okkur leist ágætlega á þessa hugmynd. Við vorum með alla þessa reynslu og búin að fara með allan þennan herkostnað í Dag til að þreifa fyrir okkur hvernig þriðja blaðið ætti að líta út og vorum sannfærð um að við ættum að gera þetta,“ segir Eyjólfur.

Á þessum tíma var Eyjólfur að vísu hættur sem framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar og segir hann föður sinn hafa hvatt sig til að leiða þetta blað. „Ég var tregur til að steypa mér út í ný tvísýn verkefni en freistingin að sjá drauminn um þriðja dagblaðið rætast varð til að ég ákvað að láta slag standa."

Veturinn 2000 til 2001 var svo unnið að undirbúningi Fréttablaðsins í samstarfi við starfsmenn Frjálsrar fjölmiðlunar enda mikil reynsla í því fyrirtæki af útgáfu. Smám saman mótuðust hugmyndirnar um það hvernig Fréttablaðið ætti að vera að útliti og innihaldi. „Við litum meðal annars til metróblaðanna sem voru með stuttar fréttir. Við vildum að fólk ætti auðvelt með að staðsetja sig í blaðinu og svo höfðum við það auðvitað í huga að blaðið var gestur á heimilum, kom óboðið í hús ef svo má segja. Þannig að það varð að gæta ákveðinnar hógværðar," segir Eyjólfur. Einnig var leitað aðstoðar ýmissa aðila utan fyrirtækisins við undirbúning Fréttablaðsins, meðal annars auglýsingastofunnar Mekkanó. „Þar unnu þeir einmitt báðir Einar Karl Haraldsson, fyrsti ritstjóri Fréttablaðsins, og Gunnar Smári Egilsson sem alla tíð var lykilstarfsmaður, fyrst í umbroti, svo leiddi hann auglýsingadeild og loks tók hann við af Einari sem ritstjóri."

Frjáls fjölmiðlun átti að vera aðaleigandi að blaðinu en fljótlega kom í ljós að fyrirtækið væri ekki í stakk búið til að styðja við blaðið umfram það sem gert var á undirbúningstímanum. „Við ákváðum samt að koma blaðinu á laggirnar og til þessa dags er ég undrandi á þeim eldmóði og hugsjónakrafti sem starfsfólk og samstarfsaðilar sýndu. Þó þetta væri vissulega galin hugmynd vorum við frá byrjun viss um að við hefðum spennandi hlut í höndunum. Allt gekk þetta eins og í sögu. Blaðið var frá upphafi gefið út með sama sniði og er í dag og hitti í mark."

Þrátt fyrir að margir hafi komið undirbúningi blaðsins var það meðvituð ákvörðun að undirbúningurinn færi frekar hljótt. Eyjólfur segir það hafa verið strategíska ákvörðun á sínum tíma að tala blaðið niður áður en það hóf göngu sína. „Við vildum ekki vekja of mikla athygli samkeppnisaðila okkar. Þetta var línudans því við vildum heldur ekki fæla frá okkur auglýsendur. En við vissum sem var eftir áratuga reynslu af útgáfu að um leið og við fengjum lestrartölur þá myndu auglýsendur hoppa á vagninn. Sama hvar þeir eru í pólitík og sama hvað þeim fyndist um okkur þá myndu þeir kaupa auglýsingar ef blaðið væri mikið lesið. Annað umtal þyrftum við ekki."

Auglýsendur tóku við sér fyrir alvöru á vormánuðum 2002 að sögn Eyjólfs. „Þá var lestur Fréttablaðsins á dreifingarsvæði þess orðinn meiri en Morgunblaðsins, samkvæmt könnun sem við létum gera í júní 2002 og seldir dálksentímetrar fleiri." Fjárbinding í útistandandi kröfum voru hins vegar meiri en fyrirtækið réði við. „Þá er óhætt að segja að við nutum ekki pólitískrar velvildar. Áhugasamir fjárfestar héldu að sér höndum og biðu þess að við neyddumst til að selja blaðið ódýrt. Það varð raunin og í lok júní 2002 létum við blaðið frá okkur gegn loforði um uppgjör á ógreiddum dreifingarkostnaði. Nýir eigendur tóku stutt útgáfusumarfrí, eins og tíðkast víða, og svo hélt útgáfan áfram með sama sniði, á sama stað og að mestu leyti með sama starfsfólki," segir Eyjólfur.

Nokkur eftirmál urðu af rekstrinum en Eyjólfur hlaut dóm fyrir að hafa ekki staðið skil á vörslusköttum. „Það reyndust samtals vera um fimm milljónir sem höfðu verið greiddar og seint, í flestum tilfellum nokkrum dögum eða vikum. Það varð úr þessu mikið havarí en ég sat sem betur fer einn í súpunni sem stofnandi. Við allt þetta bras hefðum við eflaust getað losnað með meiri varkárni."

„Ég verð að viðurkenna að fyrir mig þá var málið að láta þetta ganga upp, við vorum búin að vinna að því að skapa stórblað í hálfan áratug og það var mjög gaman og gefandi að sjá það gerast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×