Innlent

Kemur vel til greina að taka hlutafélag af skrá

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir vel koma til greina að taka hlutafélag af skrá, skili menn ekki ársreikningum eins og mörg dæmi sýni. Það hefði í för með sér að eigendur félaganna bæru ótakmarkaða persónulega ábyrgð á rekstri og skuldum félaganna.

Fréttastofa hefur oft sagt frá því að fjöldi hlutafélaga, raunar margar þúsundir, eru í vanskilum með ársreikninga; í þessum hópi eru stórskuldug, en eignalaus félög. Eigendur hlutafélaga bera takmarkaða ábyrgð á þeim; það er að segja, ekki umfram eignarhlut sinn í þeim.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, vakti athygli á því í fréttum okkar í gær, að ráðherra hafi heimild til að taka félög út af hlutafélagaskrá; hafi þau vanrækt að skila reikningum. Heimildinni hefði hins vegar aldrei verið beitt. Yrði slíkt gert, héldi félag áfram að vera til, en eigendur þess, bæru fulla og ótakmarkaða ábyrgð á rekstri þess og skuldum.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir vel koma til greina að hann beiti slíkri heimild þar sem það á við. Hins vegar hafi ráðuneytið aldrei fengið nein erindi frá ársreikningaskrá um þetta.

Hann segir jafnframt umhugsunarefni hvort ekki ætti að herða viðurlög við því að menn trassi að skila reikningi í eitt ár, svo tvö, áður en gripið yrði til úrræðis af því tagi að taka félag af skrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×