Innlent

Karlmenn skrifa um jafnrétti

Hópur karla mun skrifa í Fréttablaðið og á Vísi.Fréttablaðið/gva
Hópur karla mun skrifa í Fréttablaðið og á Vísi.Fréttablaðið/gva
Karlmenn fá tækifæri til að taka þátt í umræðunni um jafnréttismál bæði í Fréttablaðinu og á Vísi í árveknis­átakinu Öðlingnum 2011. Átakið stendur í einn mánuð, hefst á bóndadaginn, 21. janúar, og lýkur á konudaginn, 20. febrúar.

Pistlar frá svokölluðum Öðlingum munu birtast daglega á Vísi og jafnframt nokkrum sinnum í viku í Fréttablaðinu. Öðlingsátakið var stofnað í fyrra af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, höfundi bókarinnar Á mannamáli, sem fjallaði um kynbundið ofbeldi á Íslandi. Þá beindist athyglin að einni tiltekinni birtingarmynd misréttis: ofbeldinu. Átakið leiddi meðal annars til þess að Þórdís Elva var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins.

„Ég vildi að átakið í ár yrði með orðið að vopni vegna þess að því meira sem við ræðum málin, þeim mun meira ráðumst við á þessa þögn sem hefur ríkt lengi í kringum ýmsa anga jafnréttis­baráttunnar,“ útskýrir Þórdís Elva.

„Mig grunar að ýmsir karlar séu orðnir svolítið feimnir við að kveðja sér hljóðs í þessum málaflokki vegna þess að hann hefur verið yfirráðasvæði kvenna undanfarin ár,“ segir Þórdís.

„Ég ákvað að kanna hver viðbrögðin yrðu ef ég byggði brú fyrir karla yfir í þessa umræðu – hvort þeir myndu vildu stökkva um borð. Það reyndist vera og ég er afskaplega þakklát fyrir það. Ég tel það kveikja mikinn vonarneista um að jafnréttismál geti tekið stórstígum framförum.“

- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×