Innlent

Ófært að sinna fíkniefnaeftirliti vegna niðurskurðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan á Akranesi hefur lítil tök á því að sinna markvissu eftirliti á borð við fíkniefnaeftirlit, þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi lögreglumanna við slík störf, vegna niðurskurðar. Þetta kemur fram í ályktun sem Lögreglufélag Akraness sendi frá sér í gær. Í ályktuninni mótmælir Lögreglufélag Akraness harðlega niðurskurði til embættis Sýslumannsins á Akranesi sem verði til þess að lögreglunni á Akranesi sé gert ókleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

í ályktuninni segir að árið 2007 hafi 13 lögreglumenn starfað við embætti Sýslumannsins á Akranesi og þar af níu á sólarhringsvöktum. Sparnaðarkröfur sem settar hafa verið á embættið hafi leitt til fækkunar lögreglumanna og þar starfi nú 10 lögreglumenn og verði níu eftir 1. mars 2011, þar af sex sem ganga vaktir en íbúum hafi fjölgað í rúmlega 6.500 á sama tíma.

„Forvarnarstarf í grunnskólum hefur verið lagt niður, eftirlit skert til muna sökum skorts á rekstrarfé og krafa gerð um minni notkun lögreglubifreiða. Kemur það óhjákvæmilega niður á frumkvæðisvinnu lögreglumanna sem hafa lítil tök á að sinna markvissu eftirliti á borð við fíkniefnaeftirlit, þar sem ekki hægt að tryggja öryggi lögreglumanna við slík störf," segir í ályktun lögreglunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×