Innlent

Undantekning að ofvirknilyf séu misnotuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans sinnir börnum sem eru með geðraskanir á borð við ADHD. Mynd/ GVA.
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans sinnir börnum sem eru með geðraskanir á borð við ADHD. Mynd/ GVA.
Hópur Barna- og unglingageðlækna segir það vera undantekningatilfelli að lyf á borð við ritalin, sem börnum er gefið, séu misnotuð. Umræðan um ADHD, eða athyglisbrest með ofvirkni, sé fordómafull á Íslandi. Þessir fordómar hafi meðal annars komið skýrt fram á Læknaþingi á dögunum.

„Þar var öllu blandað saman, meðferð og greiningu ADHD fyrir börn og fullorðna, misnotkun ákveðinna lyfja og jafnvel gefið í skyn að lyf sem ávísað er til barna og unglinga endi á svörtum markaði í höndum fíkla. Slíkt heyrir til svo mikilla undantekninga að fráleitt er að gera það að aðalatriði í svo alvarlegu máli sem þessi umræða er," segja læknarnir Bertrand Lauth, Gísli Baldursson, Dagbjört Sigurðardóttir og Helgi Garðar Garðarsson í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Læknarnir segja að Íslendingar standi sig vel í greiningu og meðferð á ADHD. Hins vegar þurfi að fjölga úrræðum innan skólakerfisins fyrir börn sem eru með ADHD. Úrræði, svo sem stuðningskennsla og kennsla við aðrar aðstæður en þær sem eru inni í sjálfri skólastofunni séu of fá vegna peningaleysis. Þá sé sameining og stækkun bekkja slæm þróun fyrir börn sem stríði við hvers kyns þroskafrávik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×