Innlent

Félagar í MC Iceland stöðvaðir af öryggisástæðum

Mynd frá MC Iceland á Íslandi. Myndin er úr safni.
Mynd frá MC Iceland á Íslandi. Myndin er úr safni.
„Við tökum ákvörðun um það hvort þeim verður hleypt inn í landið eftir að við höfum kannað erindi þessara manna," segir Erling Skogen, varðstjóri lögreglunnar á Gardemoen-flugvelli, í viðtali við Vísi.

Innan við tíu meðlimir MC Iceland voru teknir til skoðunar eftir að þeir komu til landsins í morgun. Talið er að þeir séu að fara hitta norsku Vítisenglana sem munu taka þá formlega inn í mótorhjólasamtökin, sem yfirvöld á Íslandi hafa lýst sem alþjóðlegum glæpasamtökum.

Erling segir mennina ekki hafa verið handtekna, heldur voru þeir stöðvaðir af öryggisástæðum.

Verið sé að kanna erindi mannanna til Noregs. „Við viljum líka vita hverja þeir eru að fara hitta," bætir Erling við sem segir að viðtalið við mennina eigi eftir að taka um tvær klukkustundir. Síðan verður tekin ávörðun um framhaldið.

Lögreglan upplýsti í gær að MC Iceland yrðu formlega tekin inn í samtökin Hells Angels um helgina. MC Iceland var áður Fáfnir en mótorhjólaklúbburinn óskaði eftir inngöngu í klúbbinn fyrir nokkrum árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×