Innlent

Fleiri segjast nú keppa við ríkið

Viðskiptaráð telur aðkomu ríksins að bankakerfinu hafa verið óumflýjanlega eftir hrun en nú þurfi að huga að framtíðarfyrirkomulagi. Fréttablaðið/Vilhelm
Viðskiptaráð telur aðkomu ríksins að bankakerfinu hafa verið óumflýjanlega eftir hrun en nú þurfi að huga að framtíðarfyrirkomulagi. Fréttablaðið/Vilhelm
Rúmur helmingur fyrirtækja telur sig eiga í beinni eða óbeinni samkeppni við hið opinbera, samkvæmt könnun Viðskiptaráðs Íslands.

„Það er áhyggjuefni að fyrir einungis ári síðan þá töldu um 40 prósent forsvarsmanna sig vera í samkeppni við opinbera aðila og fara umsvif hins opinbera á samkeppnismarkaði því enn vaxandi,“ segir í áliti sem Viðskiptaráð birti á vef sínum í gær. „Hvort sú aukning merki að fleiri fyrirtæki séu nú í óbeinni eigu hins opinbera eða hvort fyrirtæki í opinberri eigu séu að sækja í sig veðrið er erfitt að segja til um,“ segir þar. Samkeppninnar við hið opinbera er sagt gæta mest í smá- og heildsölu, þjónustugreinum og orku- og umhverfisstarfsemi.

Viðskiptaráð telur hætt við að aukin umsvif opinberra aðila á samkeppnismarkaði dragi úr þrótti atvinnulífsins. Staða fyrirtækja hljóti að bjagast ef samkeppnisaðilinn nýtur styrkleika bakhjarls á við hið opinbera. „Skerpa þarf skil á milli hins opinbera og einkaaðila með því að flýta sölu á fyrirtækjum í eigu fjármálastofnanna. Það getur hvorki talist æskilegt né eðlilegt að umtalsverður hluti fyrirtækja sé í beinni eða óbeinni ríkiseigu,“ segir í álitinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×