Innlent

Lögmaður á skilorð fyrir stórfelldan fjárdrátt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fimmtug kona hefur verið dæmd í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt. Konan játaði fyrir Héraðsdómi Reykjaness að hafa í starfi sem héraðsdómslögmaður, dregið sér og einkahlutafélögum sem hún stjórnaði, 12 milljónir króna, sem hún tók við frá forsvarsmanni byggingafélags árið 2006.

Peningarnir áttu að vera greiðsla á byggingalóð sem keypt var af þriðja aðila, en konan sá um að útbúa kaupsamninginn. Hún lét leggja peningana inn á tékkareikning í eigu einkahlutafélags síns og ráðstafaði þeim svo í eigin þágu eða inn á bankareikninga einkahlutafélaga sem hún stjórnaði í stað þess að standa skil á greiðslum á byggingarlóðinni.

Í dómnum kemur fram að konan hafi ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Hins vegar sé brotið stórfellt og hún hafi framið brotið í starfi sínu sem héraðsdómslögmaður. Þá var það jafnframt virt konunni til refsilækkunnar að óeðlilega langur tími leið frá því að málið var kært til lögreglu og þangað til að ákært var í málinu, eða þrjú ár og fjórir mánuðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×