Innlent

500 barnaníðsmál send lögreglu

Nær 500 ábendingar af rúmlega fimm þúsund, sem borist hafa Barnaheillum um myndefni þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, hafa verið sendar áfram til lögreglu.

 

Ábendingarnar hafa borist í gegnum ábendingarhnapp sem fólk getur notað verði það vart við efnið. Ábendingarnar fara síðan til rannsóknar hjá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra. Þetta segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum.

Nokkur af þessum málum hafa leitt til ákæru fyrir íslenskum dómstólum fyrir vörslu á efninu.

 

„Við vitum ekki til þess að íslensk börn hafi lent á þessum myndum og myndböndum sem lagt hefur verið hald á,“ segir Margrét. Hún bendir á að í gagnagrunni alþjóðalögreglunnar Interpol séu myndir og upplýsingar um tuttugu þúsund börn sem brotið hefur verið á með þessum hætti, en ekki hafi nema innan við þúsund fundist. „Það er afar mikilvægt að finna þessi börn og koma þeim til hjálpar.“

 

Hún segir hins vegar nokkuð um að myndir þar sem stálpaðir krakkar eru sýndir á kynferðislegan hátt birtist á samskiptasíðum á vefnum. Hún brýnir fyrir krökkum að láta ekki taka af sér slíkar myndir. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×