Innlent

Ekki tekið á yfirgefnum sjókvíum í lögum

Stór áform eru uppi um laxeldi í sjókvíum í Arnarfirði. Vesturbyggð telur mat á umhverfisáhrifum óþarft.Fréttablaðið/Jón Sigurður
Stór áform eru uppi um laxeldi í sjókvíum í Arnarfirði. Vesturbyggð telur mat á umhverfisáhrifum óþarft.Fréttablaðið/Jón Sigurður
Tvö fyrirtæki, Arnarlax og Fjarðalax, vilja heimild fyrir samtals 4.500 tonna laxeldi í Arnarfirði. Vesturbyggð segist í umsögn til Skipulagsstofnunar ekki telja að það eigi að vera háð mati á umhverfisáhrifum.

„Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir áhyggjum sínum yfir þeim töfum sem hafa orðið á útgáfu leyfa til laxeldis í Arnarfirði. Miklar vonir eru bundnar við nýtingu náttúruauðlinda til gjaldeyrisskapandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllu með tilheyrandi fjölgun starfa og auknum umsvifum í sveitarfélaginu," segir bæjarráðið sem hins vegar hefur áhyggjur af því hvað verði ef sjókvíaeldið lognast út af.

„Hvergi virðist tekið á því í lögum að ef starfsemi af einhverjum sökum leggst af þá sé það skylda rekstraraðila að ganga frá svæðum eins og komið var að þeim. Til eru dæmi um að mannvirki í sjó hafi verið yfirgefin og enginn skuldbundinn til að ganga frá. Eins og fram hefur komið hafa sveitarfélög ekki skipulagsvald utan netalaga og því er spurt hvort hægt er að beita lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í slíkum tilfellum," segir bæjarráðið, sem kveður núgildandi lög og reglur um rekstrarleyfi til fiskeldis í sjó löngu úreltar og skorar á yfirvöld að endurskoða þau hið fyrsta. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×