Innlent

Beiðnunum er jafnan hafnað

Á árabilinu 2000 til 2010 barst Hæstarétti 41 beiðni um endurupptöku máls sem dómurinn hafði dæmt. Af þeim voru þrjár samþykktar.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur VG. Af 41 beiðni var 32 hafnað en fimm voru afturkallaðar. Eitt þeirra mála sem bárust árið 2009 er enn til meðferðar.

Árlegar beiðnir um endurupptöku eru frá einni og upp í sex. Rétturinn samþykkti endurupptöku mála árin 2001, 2007 og 2010. Í kjölfar svarsins hefur Álfheiður lagt nýja fyrirspurn fyrir ráðherrann. Spyr hún hve margir dómarar ákváðu synjun hverrar beiðni fyrir sig, hvernig dómarar voru valdir og hvers vegna ákvarðanir um endurupptöku og synjun eru ekki birtar á vef Hæstaréttar. Þá spyr Álfheiður hvort ástæða sé til að breyta lögum eða verklagi við ákvörðun um endurupptöku mála.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×