Innlent

Skólameistari íhugar málaferli vegna auglýsinga Office 1

Mynd/www.n4.is
Formaður bæjarráðs Akureyrar og tveir skólameistarar í bæjarfélaginu

voru notaðir í heimildarleysi í auglýsingar Office 1 á Akureyri fyrir jól. Skólameistari MA skoðar nú lagalega stöðu sína. Markaðsstjóri Office 1 segir að um húmor hafi verið að ræða. Fjallað er um málið á vef sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri.

Í auglýsingunum birtust myndir af Oddi Helga Halldórssyni, formanni bæjarráðs, Jóni Má Héðinssyni, skólameistara MA og Hjalta Jóni Sveinssyni, skólameistara VMA. Þar var auk þess haft eftir þeim að þeir ætluðu að spara í ár.

„Ég er nú að kanna hvaða lagalegu stöðu ég hef við þessar kringumstæður. Það er alvarlegt að nota embættið með þessum hætti. Á meðan við könnum stöðuna munum við ekki eiga viðskipti við umrætt fyrirtæki," er haft eftir skólameistaranum Jóni Má á vef N4.

Þar segir Oddur Helgi að um dónaskap væri að ræða. Erling Ingason, markaðsstjóra Office 1, segir aftur á móti: „Þetta var okkar húmor og fólk verður að geta tekið því. Þessir menn eru í opinberum stöðum og þurfa að spara í ár."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×