Innlent

Neitar því að hafa skipt um skoðun um Gjástykki

Umhverfisstofnun taldi fyrir sex árum að fyrirhugaðar rannsóknir Landsvirkjunar í Gjástykki væru ekki líklegar til að valda miklum umhverfisáhrifum. Nú segir stofnunin hins vegar verulegar líkur á að þær hafi í för með sér talsverð neikvæð áhrif og hvetur til friðlýsingar.

Ákvörðun Orkustofnunar að veita Landsvirkjun rannsóknarleyfi í Gjástykki varð til þess að tveir ráðherrar minntu á það í gær að það væri eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að friðlýsa svæðið og lýsti forstjóri Landsvirkjunar því svo yfir í gærkvöldi að fyrirtækið ætlaði ekki að hefja boranir þar að sinni.

Oddviti sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Norðurþings sakaði í dag ríkisstjórnina um að nota friðlýsingu til að minnka möguleika á byggingu álvers í Þingeyjarsýslum.

Í rökstuðningi Orkustofnunar fyrir veitingu rannsóknarleyfisins nú er meðal annars vísað til þess að Umhverfisstofnun hafi í umsögn vegna rannsóknaráætlunar Landsvirkjunar í desember árið 2004 talið að fyrirhugaðar rannsóknir væru ekki líklegar til að valda miklum umhverfisáhrifum.

Í umsögn sömu stofnunar í haust, sex árum síðar, um endurnýjun rannsóknarleyfis Landsvirkjunar, segir hins vegar að verulegar líkur séu á að umrædd framkvæmd hafi í för með sér talsverð neikvæð áhrif.

Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, neitar því að þar hafi menn skipt um skoðun.

"Alls ekki. Við höfum alltaf sagt það sama. Það á ekki að fara inn á Gjástykki," segir Kristín Linda og bætir við að Gjástykki sé afskaplega mikilvægt og merkilegt svæði sem eigi að friðlýsa til framtíðar.

Kristín Linda skýrir svarið fyrir sex árum með því að þá hafi stofnunin aðeins verið að segja álit sitt á yfirborðsrannsóknum. Það sé því alls ekki hægt að álykta út frá svarinu í desember 2004 að þá hafi Umhverfisstofnun verið að blessa rannsóknaáætlunina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×