Innlent

Býður sig fram til formanns VR

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stefán Einar Stefánsson siðfræðingur býður sig fram til formennsku í VR. Mynd/ Arnþór.
Stefán Einar Stefánsson siðfræðingur býður sig fram til formennsku í VR. Mynd/ Arnþór.
Stefán Einar Stefánsson siðfræðingur lýsti yfir framboði til embættis formanns VR á framhaldsaðalfundi sem haldinn var í félaginu í gær. Kosningarnar verða í mars. Stefán Einar segist taka þessa ákvörðun að vandlega yfirlögðu ráði og eftir áskoranir frá félagsmönnum sem uggandi séu yfir þeirri óeiningu sem ríki innan stjórnar félagsins.

„Nú þegar kjaraskerðing félagsmanna er orðin óbærileg, kjarasamningar eru lausir og sífellt þrengir meira að heimilunum í landinu, er nauðsynlegt að stærsta verkalýðsfélag landsins sé í stakk búið til að láta til sín taka," segir Stefán Einar meðal annars í tilkynningu til fjölmiðla.

Styr hefur staðið um stjórn VR að undanförnu. Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR, sagðist í grein í Fréttablaðinu í gær vera í vafa um það hvort hann myndi „taka slaginn" að nýju. Átökin í VR hefðu tekið á sig og fjölskyldu sína, en stærsta fórnarlambið sé félagið sjálft.

„Þegar allt kemur til alls eru tæplega 30 þúsund félagsmenn að líða fyrir átök 100-200 félagsmanna og það mitt í kjarasamningum. Er virðing og réttlæti í því? Við slíkar kringumstæður hlýtur maður að velta framhaldinu fyrir sér. Þar hljóta að vega þyngst hagsmunir félagsmanna. Satt að segja er ég orðinn baráttulúinn og í vafa um hvort ég taki slaginn á nýjan leik," sagði Kristinn Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×