Innlent

Segir tilgang friðlýsingar Gjástykkis að draga úr líkum á álveri

Oddvitinn segir deilur um Gjástykki tengjast fyrirætlunum um álver á Bakka við Húsavík.
Oddvitinn segir deilur um Gjástykki tengjast fyrirætlunum um álver á Bakka við Húsavík.

Oddviti sjálfstæðismanna í Norðurþingi segir tilgang ríkisstjórnarinnar með friðlýsingu Gjástykkis að minnka möguleika á byggingu álvers í Þingeyjarsýslum. Hann segir eðlilegt að sveitarfélögin taki við rannsóknarleyfinu af Landsvirkjun og láti hefja boranir strax í sumar.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar brugðust hart við í gær þegar fregnir bárust af því að Orkustofnun hefði endurnýjað rannsóknarleyfi Landsvirkjunar í Gjástykki. Umhverfisráðherra sagði þetta stóralvarlega ákvörðun og iðnaðarráðherra sagði ríkisstjórnina einhuga um að friðlýsa svæðið.

Landsvirkjun gerði í umsókn sinni ráð fyrir því að hefja boranir á miðju sumri 2011, innan fárra mánaða, en síðdegis í gær lýsti forstjóri Landsvirkjunar því hins vegar yfir að ekkert yrði borað þar í sumar enda væri það yfirlýst stefna fyrirtækisins að vinna í sátt við stjórnvöld.

Á Húsavík og nærsveitum setja menn málið í samhengi við átök um álver á Bakka. Jón Helgi Björnsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Norðurþings, segir í grein á vefnum að það sé klárt að sveitarfélögin þrjú sem Gjástykki liggi í og landeigendur hafi ekki áhuga á friðlýsingu. Ef ríkisvaldið hyggist friðlýsa svæðið hljóti það að þurfa að leysa það til sín með öllum þeim kostnaði sem af því hljótist.

Jón Helgi segir að allir sjái að tilgangur friðlýsingarinnar sé að minnka mögulegt framboð af orku frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og minnka þannig möguleika á byggingu álvers í héraðinu. Hann segir að ef Landsvirkjun vilji ekki rannsaka svæðið sé eðlilegt að fyrirtækið skili leyfinu, sveitarfélögin taki við því og gangi í þær rannsóknir sem nauðsynlegar séu strax í sumar.

Oddviti sjálfstæðismanna lýkur grein sinni á þeim orðum að það sé því miður að renna upp fyrir heimamönnum betur og betur að meðan núverandi ríkisstjórn sé við völd, með öll sín innanmein, muni ekkert gerast á hennar vegum sem leiða muni til uppbyggingar í kringum orkuiðnað í Þingeyjarsýslum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×