Innlent

Bjarni: Hagsmunir þjóðarinnar að kosið verði hið fyrsta

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu sína um vantraust á ríkisstjórnina klukkan fjögur í dag. Bjarni sagði tillöguna lagða fram fyrir hönd allra þeirra sem gefist hafi upp á samstarfi núverandi stjórnarflokka. Hann líkti ríkisstjórninni við grindahlaupara sem hafi misstigið sig sig í upphafi hlaups og aldrei náð taktinum. Enginn hefði trú á því að hann nái í mark. Bjarni hvatti til þess að tillagan verði samþykkt svo Alþingi geti endurheimt virðingu og traust, sem séu forsendur uppbyggingar.

Með því að boða til kosninga í vor væri verið að bjóða nýtt upphaf og gefa fólki kosti á því að velja á milli ólíkra leiða. Hann sagði nauðsynlegt fyrir þingið að endurheimta trúnað kjósenda. Þá sagði hann tillöguna lagða fram fyrir hönd allra þeirra sem gera kröfu um að alþingi vinni að mikilvægustu málum hverrar stundar.

Bjarni sagði að þingmenn þurfi ekki að vera sammála um á hvaða forsendum tillagan sé samþykkt en benti á að sumir stjórnarþingmanna þurfi að spyrja sig að því hvort meiri hagsmunum sé fórnandi fyrir minni.

Bjarni sagði mikilvægasta verkefnið vera að vaxa inn í framtíðina. Ríkisstjórninni hefði hinsvegar mistekist hrapalega í því verki. Þá vitnaði hann til ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur frá árinu 1994 þegar rætt var um vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn þegar Jóhanna talaði um að ríkisstjórni yrði að njóta trausts almennings og atvinnulífs.

„Lykillinn að viðreisn er að skapa verðmæti, sá fræjum fyrir uppskeru sem skilar sér í atvinnu á næstu árum," sagði Bjarni.

Þá segir Bjarni augljóst að ESB aðild sé í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar og segir hann aðildarferlið sem nú sé í gangi aðeins til þess fallið að auka á sundrung á meðal þjóðarinnar. „Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta," sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×