Innlent

Stjórnarskráin í máli og myndum á Youtube

Í dag var opnuð vefsíðan www.stjornlogungafolksins.is. Þar er að finna skemmtileg fræðslumyndbönd þar sem stjórnarskráin er skoðuð með nýstárlegum hætti. Um tímamótaverkefni er að ræða, þar sem flókið umfjöllunarefni er einfaldað og sett fram í máli og myndum. Efnið á heimasíðunni hefur verið unnið af UNICEF á Íslandi, umboðsmanni barna og Reykjavíkurborg, með það fyrir augum að fræða börn og ungmenni um grunnþætti stjórnarskrárinnar að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum.

„Á vefsíðunni geta börn og ungmenni horft á fræðslumyndböndin og hlaðið upp eigin skoðunum í tengslum við stjórnarskrá lýðveldisins og framtíðarsýn sína. Þar geta skólar, leikskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og ungmennaráð einnig nálgast kennsluleiðbeiningar um stjórnarskrána. Útbúið hefur verið kennsluefni fyrir öll stig grunnskólans sem og leikskóla."

Þá verður þing ungmennaráða haldið í Iðnó í Reykjavík laugardaginn 16. apríl. „Þangað er fulltrúum ungmennaráða sveitarfélaga boðið til að vinna álit út frá spurningum tengdum umfjöllunarefnum stjórnarskrárinnar. Að þinginu loknu verður unnið úr niðurstöðum þess ásamt því efni sem hlaðið verður upp á vefsíðu verkefnisins. Sett verður saman skýrsla sem kynnt verður fjölmiðlum og afhent fulltrúum stjórnlagaráðs og Alþingi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×