Innlent

Kaldasti júlímánuður í fimm ár, sá fjórtándi hlýjasti frá 1871

Meðalhiti í Reykjavík var 12,2 stig í nýliðnum mánuði og er hann kaldasti júlímánuður í fimm ár, samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Þrátt fyrir það var meðalhitinn á landinu yfir meðallagi júlímánaða á nokkrum síðustu áratugum síðustu aldar eða frá árinu 1961 til 1990. Hins vegar hefur verið mjög hlýtt í júlí undanfarin ár og þessi júlímánuður var sá kaldasti frá 2006 en engu að síður í fjórtánda hlýjasta sæti frá því að mælingar hófust á Íslandi árið 1871.

Meðalhiti í Reykjavík var tólf komma tvö stig en það er tæpum tveimur stigum yfir meðallagi. Meðalhiti á Akureyri var tólf stig, sem var rúmlega einu stigi yfir meðallagi.

Meðalhitinn í júlí var hæstur í Hvalfirði en þar mældist hann tólf komma sex stig og var næsthæstur á Hafnarmelum. Lægsti meðalhitinn var hins vegar á Brúarjökl en lægsti meðalhitinn í byggð var Kambanesi þar sem hann mældist sjö komma sjö stig.

Hitametið á landinu í júlí var þó slegið á Húsavík, þar sem hitinn fór upp í tæp tuttugu og fimm stig þann tuttugusta og sjöunda júlí. Annars var þurrviðrasasmt á Norður- og Vesturlandi í júlí og kaldast á Austfjörðum og austast á Suðausturlandi, en hlýjast var á Vestfjörðum.

Ef litið er til meðaltalsins hefur verið hlýtt á landinu fyrstu sjö mánuði ársins. Meðalhiti í Reykjavík var fimm komma tvö stig sem er tæpu einu stigi ofan meðaltalsins frá árinu 1961 til 1990, en ögn kaldara en meðaltalið 2001 til 2010. Á Akureyri er hitinn fyrstu 7 mánuði ársins nú einu stigi ofan meðaltalsins 1961 til 1990. Júnímánuður var hins vegar sá kaldasti frá árinu 1952 á Akureyri og aðeins tveir aðrir júnímánuðir hafa verið kaldari frá því að mælingar hófust á Akureyri árið 1881.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×