Innlent

Morðið í Heiðmörk: Segir kerfið hafa brugðist syni sínum

Móðir mannsins sem myrti barnsmóður sína í Heiðmörk segir kerfið hafa brugðist, en maðurinn er ósakhæfur að mati geðlækna.

Maðurinn, sem er tuttugu og fimm ára gamall, var handtekinn við Landspítalann í Fossvogi í maí á þessu ári. Þangað hafði hann keyrt með lík barnsmóður sinnar í farangursgeymslu bílsins og gefið sig fram. Í bílnum var einnig tveggja ára barn þeirra og er talið að barnið hafi setið í bílnum meðan maðurinn varð barnsmóður sinni að bana í Heiðmörk.

Móðir mannsins, sem fréttastofa ræddi við, sagði að í tilfelli sonar hennar hefði kerfið brugðist. Hann hafi glímt við mikil andleg veikindi og verið leystur út af geðdeild skömmu áður en hann myrti barnsmóður sína. Eftirfylgni hafi í raun verið engin og hann aðeins leystur út með lyfseðla. Það hljóti að vera ábyrgðarhluti þegar veikum einstaklingi sé hleypt aftur út í samfélagið; ekki hafi verið hlustað á köll hans á hjálp.

Móðirin treysti sér ekki til að koma fram undir nafni enda málið reynt mikið á alla aðstandendur.

Maðurinn er nú vistaður að Sogni en þar dvelja þeir afbrotamenn sem eru ósakhæfir sökum andlegra veikinda. Maðurinn hefur ekki játað verknaðinn heldur ber við minnisleysi. Málið verður þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×