Innlent

Heiðmerkurmorðinginn ósakhæfur

Maðurinn var leiddur fyrir dómara daginn eftir að ódæðið var framið og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Maðurinn var leiddur fyrir dómara daginn eftir að ódæðið var framið og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Mynd/Stöð2
Sakborningurinn í Heiðmerkurmálinu svokallaða er að öllum líkindum ósakhæfur. Það er niðurstaða geðlækna sem framkvæmt hafa mat á manninum sem varð barnsmóður sinni að bana í Heiðmörk í maí. Málið verður þingfest í næstu viku.

Maðurinn, sem er 25 ára gamall, flutti lík unnustu sinnar að Landspítalanum í Fossvogi eftir að ódæðið hafði verið framið. Tveggja ára sonur þeirra sat í bílnum meðan maðurinn kyrkti barnsmóður sína, tuttugu og eins árs að aldri, og kom líkinu fyrir í farangursgeymslu bílsins. Hann ók að Landspítalanum í Fossvogi, gaf sig fram og vísaði á líkið.

Lögreglan var kölluð til og maðurinn handtekinn. Hann var vistaður á Réttargeðdeildinni að Sogni en þar dvelja þeir afbrotamenn sem eru ósakhæfir sökum andlegra veikinda.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er nú mati geðlækna á manninum lokið og er niðurstaða þeirra sú að hann sé ósakhæfur. Maðurinn hefur ekki játað verknaðinn og ber við minnisleysi.

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×