Innlent

Tók tvö ólögleg net með makríl

Eftirlitsmaður með erindisbréf frá Fiskistofu fór ekki í erindisleysu um voginn á sunnudaginn.
Eftirlitsmaður með erindisbréf frá Fiskistofu fór ekki í erindisleysu um voginn á sunnudaginn.
Eftirlitsmaður frá Fiskistofu gerði síðastliðinn sunnudag upptæk tvö net sem lögð höfðu verið á Bíldudalsvogi. Bannað er að hafa net við strendur frá föstudagskvöldi til þriðjudagsmorguns en einnig er líklegt að þau hafi legið nær ármynni en lög gera ráð fyrir.

„Hann kom hérna í lögreglufylgd í gegnum garðinn með myndavél og tók myndir af laxahreistri áður en hann fór út á voginn og tók þetta upp,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, sem varð vitni að atburðinum. Hann er ekki eigandi netanna. Hann segir enn fremur að einungis hafi verið makríll í netunum en enginn lax.

Hann segir enn fremur að það hafi vakið athygli bæjarbúa að eftirlitsmaðurinn hafi verið ásamt konu sinni eins og hver annar ferðamaður á tjaldstæðinu á Bíldudal. Þorsteinn G. Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Fiskistofu, segir að Fiskistofa fái verktaka til þessara starfa vítt og breitt um landið og sé þeim í sjálfsvald sett hvernig þeir haga sínum ferðalögum.

Lögreglan á Vestfjörðum segir að netin hafi verið gerð upptæk og að málið sé nú til rannsóknar.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×