Innlent

Rafbúnaður á Miðnesheiðinni slysagildra fyrir fjölskyldur

Valur Grettisson skrifar
Húsin eru með bandarískt rafmagnskerfi.
Húsin eru með bandarískt rafmagnskerfi.

„Rafbúnaðurinn á Keflavíkurflugvelli er slysagildra fyrir fjölskyldur sem búa þar og sérstaklega fyrir rafiðnaðarmenn sem starfa við hann, þar sem nú eru tvö kerfi í gangi," segir í ályktun Rafiðnaðarsambandsins sem samþykkt var á fundi miðstjórnar og samninganefnda sambandsins í gær.

Þar var fjallað um rafmagnsöryggismál á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í ályktuninni kemur fram að sambandið áskilja sér þann rétt að beina kvörtunum til Eftirlitsstofnunnar EFTA (ESA) verði ekki ráðist tafarlaus í það verk að koma rafbúnaðinum í eðlilegt horf.

Þegar varnarliðið fór af landi brott þá skildu þeir eftir sig bandarískt rafmagnskerfi. Þegar Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hóf uppbygginu á svæðinu voru sett bráðbirgðalög. Í þeim lögum var eigendum og forráðamönnum bygginga á svæðinu heimilt að nota raflagnir og rafföng í þáverandi ástandi til 1. október 2010.

Rafiðnaðarsambandið var afar ósátt við lögin þá og að nú hafi ekkert verið að gert þar sem rafmagnskerfið er ekki í samræmi við íslenskar reglur á rafmagnsöryggisviði.

Svo segir orðrétt í ályktuninni:

„Þessu var harðlega mótmælt af hálfu Rafiðnaðarsambands Íslands, þarna var löggjafinn að íhlutast með óeðlilegum hætti í þágu eins aðila, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, á kostnað rafmagnsöryggis. Getur byggingaraðili vænt sömu meðferðar? Getur stór aðili eins og t.d. Landsvirkjun vænt sömu meðferðar ef reistar verða stórar vinnubúðir?

Þessar reglugerðir eru reyndar ekki allar á valdi íslenskra stjórnvalda, þær eru samkvæmt EES stöðlum sem íslenskt stjórnvöld geta ekki breytt og þeim grundvelli stenst þessi aðgerð alls ekki skoðun með vísan í almennar meginreglur um jafnræði. Setning bráðabirgðalaganna árið 2007 var að mati Rafiðnaðarsambands Íslands brot á skuldbindingum Íslands skv. samningnum um EES, sbr. lög nr. 2/1993."

Þá bendir sambandið á að fjölmargir rafiðnaðarmenn séu atvinnulausir, auk þess að fjölmargir hafa flutt af landi brott og fleiri eru að undirbúa flutning. Sambandið telur að það væri hægt að ná mjög góðum samningum í dag til þess að ljúka þessum málum og um leið bæta töluvert úr erfiðu atvinnuástandi á Suðurnesjum.

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×