Innlent

Viðkvæmt hellakerfi í Borgarfirði friðlýst

Steinmyndanir í hellinum eru einstakar á heimsvísu og því nauðsynlegt að friða hann til að varðveita náttúruvættið. Myndina tók Árni B. Stefánsson árið 1993, en hann hefur haft forystu um verndun hellisins.
Steinmyndanir í hellinum eru einstakar á heimsvísu og því nauðsynlegt að friða hann til að varðveita náttúruvættið. Myndina tók Árni B. Stefánsson árið 1993, en hann hefur haft forystu um verndun hellisins. mynd/áBS
Kalmanshellir í Hallmundarhrauni verður friðlýstur á morgun. Markmiðið er að vernda hellinn, einstæðar jarðmyndanir hans og hellakerfið allt og koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum.

Hellirinn var kannaður og mældur upp í leiðangri íslenskra og bandarískra hellaáhugamanna sumarið 1993 undir forystu Jay Reich. Reyndist hellirinn vera rúmir fjórir kílómetrar að lengd og þar með vera lengsti mældi hraunhellir landsins.

Hluti hellisins er töluvert hruninn. Tilefni friðlýsingarinnar er að ein hellisgreinin, um 500 metra löng, skartar óvenju glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum, jafnt dropastráum sem dropasteinum og telst vera náttúrufyrirbæri á heimsvísu. Þar er eitt lengsta þekkta hraunstrá jarðar, 1,65 metrar að lengd.

Umferð um viðkvæmasta hluta hellisins er alfarið óheimil nema brýnir almannahagsmunir séu í húfi, að mati Umhverfisstofnunar og umsjónaraðila.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×