Innlent

Pláss laus hjá dagforeldrum

Aðgerðir Reykjavíkurborgar, sem og erfiðara atvinnuástand, hafa skilað því að auðveldara er að finna dagforeldra.
Aðgerðir Reykjavíkurborgar, sem og erfiðara atvinnuástand, hafa skilað því að auðveldara er að finna dagforeldra. Fréttablaðið/Pjetur
Nokkuð er um laus pláss hjá dagforeldrum víðs vegar um borgina, sér í lagi í úthverfunum, að sögn Kristbjargar Jónsdóttur, stjórnarmanns í Félagi dagforeldra. Sem fyrri daginn er slíka vistun síst að fá í Mið- og Vesturbæ.

„En það eru auðvitað alltaf einhverjir dagforeldrar sem eru með allt fullt og biðlista. Og húsnæðið í 101 er dýrt og óhentugt,“ skýrir Kristbjörg.

Síðustu ár hefur reglulega verið greint frá því að slegist sé um pláss hjá dagforeldrum í Reykjavík. Kristbjörg segir að aðgerðir Reykjavíkurborgar síðasta árið hafi stuðlað að breyttri stöðu, því borgin fjölgaði dagforeldrum mikið og auglýsti sérstaklega eftir þeim. Einnig hafi fjölgun á atvinnuleysisskrá auðveldað borginni að finna fólk til vinnu.

Kristbjörg varar fólk við því að styðjast um of við heimasíður þjónustumiðstöðva borgarinnar, þegar athugað er hvort pláss séu laus. Síðurnar séu misvel uppfærðar. Hún mælir með síðum eins og Barnalandi eða Bland.is.

Þar hefur mátt finna auglýsingar frá dagmæðrum bæði í Mið- og Vesturbæ í vikunni.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×