Innlent

Vill flytja fleiri verkefni til sveitarfélag

elín björg Jónsdóttir
elín björg Jónsdóttir
„Ég er sannfærð um að því nær ákvörðunarvaldinu sem við erum, því markvissari verða áætlanirnar,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á hlutverki ríkisins.

Elín Björg er sannfærð um að flutningur fleiri verkefna frá ríki til sveitarfélaga muni skila árangri í fyrirætlunum yfirvalda um frekara aðhald í komandi fjárlögum. Hún nefnir þar sérstaklega málefni aldraðra og heilsugæslu.

„En það er nauðsynlegt að hugsa þetta mál út frá öllum hliðum,“ segir hún. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á laugardag að skilgreina þyrfti umfang ríkisrekstrar upp á nýtt með því að afmarka kjarnaþjónustu. Huga þyrfti alvarlega að því hvort önnur þjónusta ætti heima á hendi annarra. Nú stendur yfir vinna í ráðuneytum við fjárlög næsta árs og ljóst þykir að mikils aðhalds þarf að gæta í rekstri ríkisins.

Elín Björg segir afar mikilvægt að ríkið skeri ekki frekar niður í velferðarkerfinu. Krafan um þá þjónustu í samfélaginu hafi aldrei verið meiri og því sé brýnt að taka umræðuna upp og taka ákvarðanir hvar hægt sé að takmarka fjármagn.

„Við vitum að vandinn er mikill en það má ekki skera meira niður í velferðarmálunum; þjónustu ríkis og sveitarfélaga,“ segir hún. „Það þarf að taka þessa umræðu í alvöru. Ákveða hvaða velferðarþjónustu við ætlum að verja og hvað sé mikilvægast. Við þurfum að láta annað bíða á meðan.“

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði á föstudag að einboðið sé að sveitarfélög verði að stækka og eflast til að takast á við aukin verkefni. Mikilvægt sé að ráðast í algjöra endurskoðun á hlutverki þeirra, en gæta þess að standa vörð um velferðarkerfið.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×