Innlent

Umboðsmaður barna kallar Audda og Sveppa á teppið

Valur Grettisson skrifar
Auddi og Sveppi bregða á leik.
Auddi og Sveppi bregða á leik.

„Við hörmum málið," segir Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri dagskrásviðs 365 miðla, en Umboðsmaður barna hefur sent honum bréf vegna athugasemda sem embættið gerir á þáttum Audda og Sveppa.

Bréf stílað á dagskrástjóra var sent til 365 miðla þann 18. nóvember en umboðsmaður barna hefur ekki fengið neitt svar. Því birti hún bréfið opinberlega á vef umboðsmannsins 30. desember síðastliðinn.

Helsta ástæða kvörtunar umboðsmannsins er orðrétt: „Athugasemdir vegna þáttarins Auddi og Sveppi sem sýndur var 5. nóvember sl. en í þættinum heimsótti Auddi leikskóla þar sem hann m.a. kúgaðist yfir bleyjuskiptum og sýndi kynfæri og hægðir barns."

Umboðsmaður barna segist margoft hafa fengið athugasemdir vegna umræddra þáttastjórnenda á síðustu árum, bæði vegna ofangreinds þáttar og annarra þátta sem þeir hafa stjórnað, svo sem Strákanna og Ameríska draumsins. Þá hafa ábendingar einnig borist vegna barnatíma Sveppa.

Að sögn Pálma mun hann ásamt Audda og Sveppa funda með umboðsmanni barna, Margréti Maríu Sigurðardóttur, á mánudaginn.

„Við vonum bara að fundurinn verði uppbyggjandi og góður," sagði Pálmi sem vildi ekki tjá sig um einstaka drætti í þeim kvörtunum sem borist hafa umboðsmanninum. Hann sagði þá einfaldlega harma málið.

Bréfið má hinsvegar lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×