Innlent

Gögnum stolið frá samtökum gegn kynferðisofbeldi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Aflið starfa með þolendum heimilis- og kynferðisofbeldis á Norðurlandi. Skrifstofa þeirra er á Akureyri
Aflið starfa með þolendum heimilis- og kynferðisofbeldis á Norðurlandi. Skrifstofa þeirra er á Akureyri
Brotist var inn hjá Aflinu á Akureyri, samtaka gegn heimilis- og kynferðisofbeldi, milli jóla og nýjárs og einu tölvu samtakanna stolið. Á harða diskinum er að finna öll gögn samtakanna frá því þau voru stofnuð fyrir átta árum. Missirinn er því mikill og heita liðsmenn samtakanna fundarlaunum þeim sem veitir upplýsingar er leiða til þess að tölvan kemst aftur í réttar hendur.

„Við uppgötvuðum þetta bara í gær. Við erum núna að fara aftur af stað eftir jólafrí. Það var rólegt í einkaviðtölum milli jóla og nýjárs," segir Viktoría Jóhannsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Aflsins.

Lögreglu hefur þegar verið gert viðvart vegna málsins en um er að ræða svarta Dell-borðtölvu, þá einu sem samtökin eiga. Engu öðru var stolið.

„Þetta er hræðilegt. Þarna eru öll okkar gögn frá því við byrjuðum. Þetta er ekki mikið af persónupplýsingum en maður veit aldrei hvað óprúttnum aðilum dettur í hug," segir Viktoría. Afrit eru til af hluta gagnanna.

Aflið er til húsa við Brekkugötu 34 á Akureyri. Hægt er að koma tölvunni eða harða disknum nafnlaust til sinna réttu eigenda, með því að hafa samband við Aflið í síma 8575959 eða setja sig í samband við lögregluna á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×