Innlent

Líklegt að niðurstaða fáist í leikskólamálum í dag

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Mynd úr safni
Líkur eru á að niðurstaða fáist í ágreiningsmáli deiluaðila í dag vegna kjarasamnings Félags leikskólakennara um framkvæmd boðaðs verkfalls. Ríkissáttasemjari hefur enn ekki boðað til nýs fundar í deilunni.

Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu leikskólakennara og samninganefndar sveitarfélaganna nú þegar fimm dagar eru í fyrirhugað verkfall, en síðasti fundur í deilunni var haldinn var í fyrradag.

Leikskólakennarar og foreldrar leikskólabarna eru ekki einungis í óvissu með hvort að af verkfallinu verður, heldur einnig hvaða skólar verða fyrir áhrifum, þar sem deilt er um framkvæmd þess.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur leikskóladeildir geta starfað áfram ef deildarstjórinn er í verkfalli en lögfræðingur Kennarasambandsins er á öndverðum meiði og segir sveitarfélögin hvetja til verkfallsbrota.

Björg Bjarnadóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, segir að óskað hafi verið eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaganna vegna ágreiningsins og verður hann haldinn um þrjúleytið í dag.

Hún vill sem minnst gefa upp, en segir þó alla helstu forsvarsmenn sveitarfélaganna ætla að mæta ásamt henni sjálfri, formanni og lögfræðingi Kennarasambandsins og aðilum frá Félagi Leikskólakennara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×