Innlent

Geðlæknar anna ekki eftirspurn

Breki Logason skrifar
Geðlæknar anna ekki eftirspurn og veikir einstaklingar geta þurft að bíða í allt að þrjá mánuði eins og fréttastofa komst að í dag. Formaður geðlæknafélags Íslands segir þetta óþolandi langan tíma en geðlækna vanti einfaldlega hér á landi.

Fréttamaður hringdi í nokkra geðlækna á höfuðborgarsvæðinu í dag og ætlaði að panta tíma. Á flestum stöðum fékk hann þau svör að viðkomandi tæki ekki við sjúklingum en ef svo væri þyrfti tilvísun frá heimilislækni eða sálfræðingi og biðtími væri allt að þrír mánuðir

Kristinn Tómasson formaður Geðlæknafélags Íslands segir að fyrst og fremst hafi ekki orðið sú endurnýjun í hópi geðlækna sem myndast hefur í samfélaginu fyrir þessari þjónustu.

Einnig beri að líta til þess að biðtími geti verið styttri ef leitað er eftir tilvísun hjá heimilislækni sem biður um að sjúklingi sé sinnt fyrr.

Þriggja til sex vikna biðtími sé eðlilegur að sínu mati.

„En þegar fer að halla í tvo þrjá mánuði þá er þetta orðið langt," segir Kristinn.

Móðir manns sem grunaður er um að hafa orðið barnsmóður sinni að bana í Heiðmörk fyrr í sumar sagði í samtali við fréttastofu í fyrrakvöld að geðheilbrigðiskerfið hefði brugðist í tilfelli sonar síns. Hann hefði skömmu áður verið leystur útaf geðdeild og eftirfylgnin í raun verið engin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×