Innlent

Ætla að uppræta svarta atvinnustarfsemi

Mynd úr safni
Farið hefur verið í rúmlega tólf hundruð fyrirtæki og vinnustaði um allt land í átaki ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ gegn svartri atvinnustarfssemi frá því í byrjun sumars og eru nú hundruð mála til skoðunar sem lúta að virðisauka-skattsskilum og tekjuskatti einstaklinga.

Átakið sem nefnist, Leggur þú þitt af mörkum?, hófst um miðjan júní og stendur til loka þessa mánaðar. Meginmarkmið átaksins er að stuðla að bættum atvinnuháttum og uppræta svarta atvinnustarfsemi. Atvinnugreinar sem hafa sérstaklega verið í skoðun eru í ferðaþjónustu, veitingahúsarekstri og byggingariðnaði.  

Aðalsteinn Hákonarsson forstöðumaður eftirlitssviðs hjá ríkisskattsstjóra segir að farið hafi verið um landið til að kanna grundvallarrekstur fyrirtækja. Fyrirtæki hafa verið heimsótt og starfsmenn beðnir um að framvísa vinnustaðaskilríkjum.

Aðalsteinn segir málin sem upp koma misalvarleg en hjá þriðjungi fyrirtækja sem hafa verið heimsótt megi eitthvað betur fara. Nú eru nokkur hundruð mál til skoðunar hjá ríkisskattsstjóra sem lúta að skilum á virðisaukaskatti og tekjuskatti einstaklinga, nokkur þeirra kunna að enda í sakameðferð hjá skattrannsóknarstjóra.

Enn er ekki ljóst hversu margir vinna svart á atvinnumarkaði því mikinn tíma tekur að kanna staðgreiðsluskrár og annað.

Embætti ríkisskattstjóra hefur flett upp þúsundum starfsmanna í þessu átaki og er nú unnið úr gagnaöflun eftir sumarið.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×