Innlent

Sögulegt samhengi réð ákvörðun

Ríkið kostaði flutning kistu Sævars hingað til lands en tók ekki þátt í kostnaði við útförina á þriðjudag.
Ríkið kostaði flutning kistu Sævars hingað til lands en tók ekki þátt í kostnaði við útförina á þriðjudag. Mynd/GVA
Innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið kostuðu flutning kistu Sævars Ciesielski frá Danmörku til Íslands. Ætla má að kostnaðurinn hafi numið allt að hálfri milljón króna.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er afar óvenjulegt að ríkið taki þátt í kostnaði á flutningi jarðneskra leifa Íslendinga erlendis frá. Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri utanríkisráðuneytisins, segir að þetta geti fallið undir skilgreiningu borgaraþjónustu ráðuneytisins.

„Hún fæst við, í vissum tilvikum, að aðstoða vegalausa Íslendinga erlendis og jafnvel að flytja heim jarðneskar leifar ef svo ber undir,“ segir Pétur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir ákvörðunina hafa verið tekna í samstarfi við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. „Ég og utanríkisráðherra tókum þá ákvörðun að kosta flutning á kistu Sævars af ráðstöfunarfé ráðherra,“ segir Ögmundur. Hann segir að ætla megi að kostnaðurinn hlaupi á hundruðum þúsunda. Hann segir ákvörðunina ekki fordæmisgefandi þar sem hún sé háð mati hverju sinni.

Spurður hvort með þessu væri verið að viðurkenna að brotið hefði verið á rétti Sævars sagðist Ögmundur ekki vilja orða það þannig. „En að sjálfsögðu tókum við ákvörðunina með hliðsjón af sögulegu samhengi.“

Stjórnvöld tóku engan þátt í kostnaði við sjálfa útför Sævars, aðeins við flutninginn á kistu hans.

- kóp, sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×