Innlent

Íslendingur sakaður um árás á góðan smekk Svisslendinga

Valur Grettisson skrifar
Úr verki Þorleifs. Er þetta árás á góðan smekk?
Úr verki Þorleifs. Er þetta árás á góðan smekk?
Leikstjórinn Þorleifur Arnar Arnarsson hefur hrist heldur betur upp í Svisslendingum en leikritið Die Kontrakte des Kaufmanns (Samningar kaupmannsins) eftir nóbelskáldid Elfriede Jelinak, i uppsetningu Þorleifs, var frumsýnt í St. Gallen í Sviss á dögunum.

Leikritið hefur fengið gríðarlega sterk viðbrögð en meðal annars sendi kona, sem býr í borginni, leikhúsinu opinbert bréf þar sem hún sakar Þorleif um árás á góðan smekk Svisslendinga.

Þá fékk leikritið hroðalegan dóm frá einu fréttablaði þar í landi á meðan aðrir gagnrýnendur lofa verkið í hástert. Eins segir á þýska vefnum, Nachtkritik.de, sem er einn virtasti vettvangur þýskrar leikhúsumræðu, að í þessari uppsetningu hefði verki Nóbelskáldsins Elfrede Jelinek fundið sinn samastað.

„Maður verður eiginlega að vera glaður yfir þessu. Það er frábært að vekja svo sterk viðbrögð í leikhúsi að fólk finni sig knúið til þess að skrifa opinber bréf," segir Þorleifur sem kom heim á dögunum eftir stranga törn.

Þorleifur Örn Arnarson þykir ekki mikill smekkmaður að mati reiðra borgara St. Gallen.
„Ég rökræði náttúrulega ekkert um góðan smekk. En dynjandi lófaklappið eftir frumsýningu sannfærði mig um að ég væri að gera eitthvað rétt," segir Þorleifur sem er þakklátur fyrir viðtökurnar.

Fjallað var um sýninguna í kvöldfréttum svissneska ríkissjónvarpsins. Það vakti mikla athygli að 30 borgarar St. Gallen stigu á svið og fluttu texta þar sem spurt var hvernig peningarnir þeirra, ellilífeyririnn og sparnaðurinn, skuli geta horfið eins og dögg fyrir sólu í fjármálakerfinu.

Þorleifur er ekki eini Íslendingurinn sem kemur að uppsetningu verksins. Símon Birgisson hannaði leikmynd og sá um tónlist. Þeir félagar bjuggu til konsept sýningarinnar saman en verkið þykir mjög óhefðbundið þar sem það samanstendur af 100 síðum af texta án peróna, sögu eða sena. Anna Rún Tryggvadóttir sá svo um að hanna búninga.

Þorleifur hefur áður sett upp leikrit í Sviss. Það var leikritið Pétur Gautur. Þá setti hann einnig upp verkið Rómeó og Júlía við góðar undirtektir.

Þorleifur segist hvergi af baki dottinn þrátt fyrir meinta harkalega árás á góðan smekk Svisslendinga. „Enda er miðjumoð dauði," segir Þorleifur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×