Innlent

Vantar 100 lækna á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að tölur Landlæknis segi ekki alla söguna. Mynd/ Valli.
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að tölur Landlæknis segi ekki alla söguna. Mynd/ Valli.
Alls voru 1146 læknar starfandi hérlendis á síðasta ári samkvæmt tölum Landlæknis. Tölurnar benda ekki til þess að atgervisflótti hafi verið í læknastétt. Þeim fækkaði um 21 frá árinu á undan og hafa aldrei verið fleiri ef árin 2008 og 2009 eru undanskilin.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir þó að tölur Landlæknis segi ekki alla söguna. Tölurnar séu reiknaðar út frá þeim fjölda lækna sem hafi starfsleyfi á Íslandi og séu búsettir hér. Landlæknir hafi ekki tölur um fjölda þeirra lækna sem séu starfandi erlendis en með lögheimili á Íslandi og eigi fjölskyldur hér. Þá hafi Landlæknir heldur ekki tölur yfir fjölda þeirra lækna sem starfi erlendis hluta úr ári. Birna segir að tölum Landlæknis skeiki um 70 - 80 lækna. Það vanti hins vegar rétt rúmlega 100 lækna í vinnu á Íslandi miðað við áætlanir sem gerðar voru.

„Það sem okkur vantar er að fá til baka unga fólkið sem er úti í sérnámi núna - en svo er alltaf einn og einn miðaldra sem voru búnir að læra sérgreinar sem hafa farið aftur út," segir Birna. Flestir læknarnir sem eru í útlöndum séu hins vegar undir 40 ára aldri. Stærsti hlutinn sé í Svíþjóð og annarsstaðar á Norðurlöndum. Það sé líka fjöldi fólks annarsstaðar í Evrópu og í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×