Innlent

Peter Stein hlýtur evrópsku leiklistarverðlaunin

Símon Örn Birgisson skrifar
Peter Stein.
Peter Stein. Mynd: EPA
Þýski leikstjórinn Peter Stein fékk evrópsku leiklistarverðlaunin afhent í gær við hátíðlega athöfn. Verðlaunin fær hann fyrir framlag sitt til evrópskrar leiklistar. Íslenski leikhópurinn Vesturport deildi aukaverðlaunum hátíðarinnar með fimm öðrum leikhópum.

Evrópsku leiklistarverðlaunin voru afhent í Sánkti Pétursborg í gær.

Peter Stein, sem hlýtur aðalverðlaun hátíðarinnar, er einn af stofnendum Schaubühne leikhússins á sjöunda áratugnum í Berlin og margar af sýningum hans eru álitnar perlur þýskrar leikhússögu - til dæmis uppsetning hans á Faust árið 2000 sem tók yfir tuttugu tíma í flutningi.

Þessi leiklistarverðlaunin eru ein þau mikilvægustu í Evrópu. Meðal fyrri vinningshafa eru Pina Bausch, Harold Pinter, Lev Dodin og fleiri. Auk heiðursins sem fylgir verðlaununum fær Peter Stein 60 þúsund evrur í sinn hlut eða um tíu milljónir króna.

Vesturport fékk aukaverðlaun

Aukaverðlaun hátíðarinnar, sem heita Nýr veruleiki í sviðslistum, var komið á fót fyrir tólf árum og er ætlað að verðlauna þá sem hafa náð árangri utan hinna stóru stofnana leikhússins. Í ár deila sex leikhópar þeim verðlaunum með sér. Hóparnir eru frá Slóvakíu, Bretlandi, Rússlandi, Finnlandi, Portúgal og Íslandi þessi verðlaun og skipta leikhóparnir þrjátíu þúsund evrum með sér. Vesturport fær því 5000 evrur í sinn hlut eða um 800 þúsund krónur.

Einnig eru veitt heiðursverðlaun dómnefndar evrópsku leiklistarverðlaunanna sem rússneski leikstjórinn Jurij Petrovic Ljubimov hlýtur í þetta skiptið fyrir starf sitt með Taganka leikhópnum í Rússlandi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, óskaði Vesturporti í gær til hamingju með verðlaunin. Þó Vesturport hafi ekki unnið aðalverðlaun hátíðarinnar er vera Vesturports á hátíðinni og sú viðurkenning sem hópurinn fær í sinn hlut mikill heiður en sýningarnar Hamskiptin og Faust, í uppsetningu Vesturports eru báðar sýndar á hátíðinni.

Umfjöllun gagnrýnenda um hátíðina má meðal annars lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×